Geir H. Haarde, forsætisráðherra sagði við fréttamenn við Ráðherrabústaðinn undir kvöld, að kjarasamningar hafi m.a. verið til umræðu á fundum ráðherra með fulltrúum vinnumarkaðarins í dag. Þá sagði hann ríkisstjórnina ekki hafa allt á sínu valdi en að hún reyni að leysa málin eins og hægt sé.
Geir sagði aðspurður, að reynt yrði greiða eins mikið og hægt er úr því ástandi sem nú ríkir áður en fjármálamarkaðir verða opnaðir eftir helgi. Þá sagðist hann bjartsýnn og ánægður með þann samtöðuanda sem komið hafi fram á fundum ríkisstjórnarinnar með aðilum vinnumarkaðarins og lífeyrissjóðanna í dag.
Hann sagði að margir hlutir hefðu verið til umræðu í Ráðherrabústaðnum og víðar í dag. Þegar hann var spurður hvort fundur yrði þar í kvöld sagði hann að ríkisstjórnin væri ekki óvön því að vinna á kvöldin og um helgar.