„Ég reyni að vera eins lítið heima og ég get; fer mikið í heimsókn til tveggja sona minna sem búa á Akureyri og vinkonu sem ég á þar," sagði Erna Jóhannsdóttir, einn íbúa Richardshúss á Hjalteyri við Eyjafjörð, við Morgunblaðið en til stendur að úrskurða húsið óíbúðarhæft vegna torkennilegra og óútskýrðra hljóða sem angra íbúana. Tvær íbúðir eru í húsinu.
„Þetta er eins og þvottavél sé í gangi," sagði Erna spurð um hvernig hún myndi lýsa hljóðinu sem hefur heyrst síðasta árið. „Það byrjar rólega en verður svo að miklum hvin. Við héldum lengi, ég og konan í hinni íbúðinni, að hljóðið kæmi frá þvottavél hinnar."
Heilbrigðisnefnd Norðurlandseystra hyggst úrskurða húsið óíbúðarhæft en íbúum þess og sveitarstjórn hefur verið gefinn kostur á að gera athugasemdir við niðurstöðuna áður en það verður gert formlega, að sögn Valdimars Brynjólfssonar heilbrigðisfulltrúa.
Ein kenningin sem sett hefur verið fram er að hljóðið komi frá borholu Norðurorku skammt frá húsinu. Dælt hefur verið úr holunni í nokkur ár, en Erna segir hljóðið aldrei hafa heyrst fyrr en eftir að farið var veita vatni úr holunni inn til Akureyrar og dæla af meira krafti en áður.
Franz Árnason, forstjóri Norðurorku, hefur neitað að fyrirtækið beri ábyrgð á ástandinu og Valdimar Brynjólfsson sagði í gær að í rannsóknarskyni hefði bæði verið slökkt á rafmagni og dælingu vatns hætt úr holunni um stundarsakir, en hljóðið engu að síður enn heyrst.
Fulltrúi Veðurstofu Íslands kom á staðinn á dögunum með jarðskjálftamæla en niðurstaða liggur ekki fyrir úr þeim athugunum. „Við teljum okkur búna að sýna fram á að það sé titringur í veggjunum sem veldur hljóðinu, en það á eftir að sýna fram á af hverju titringurinn stafar," sagði Valdimar.