Össur Skarphéðinsson, starfandi utanríkisráðherra, segir það tóma vitleysu að umræða hafi verið um það innan Samfylkingar að slíta stjórnarsamstarfi eins og 24 stundir greindu frá í gær.
Samkvæmt heimildum 24 stunda innan þingflokks Samfylkingar var samstarf stjórnarflokkanna í hættu um miðjan dag á fimmtudag en innan flokksins vildu menn senda skýr skilaboð til almennings um aðgerðir. Voru þrjár leiðir aðallega ræddar, að lýsa yfir vilja til að ganga í ESB, að sækja um lán frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum eða öðrum sjóðum og að víkja Davíð Oddssyni úr Seðlabankanum. Heimildarmenn segja Samfylkinguna óánægða með afskipti Davíðs af stjórnmálum.
Einbeiti sér að lausn
Óánægju með Davíð gætir einnig innan Sjálfstæðisflokksins og mun það, samkvæmt heimildum, hafa átt stóran þátt í að róa Samfylkinguna og þá sérstaklega ummæli menntamálaráðherra sem sagði á fimmtudag að Davíð væri kominn langt út fyrir sitt valdsvið. Heimildarmenn segja að sammælst hafi verið um að einbeita sér að því að leysa efnahagsvandann og láta ekki ágreining um seðlabankastjóra spilla fyrir. Einn ráðherra orðaði það svo: „Þetta mál verður ekki látið snúast um það.“
Stjórnarslit aldrei rædd
Össur Skarphéðinsson, starfandi utanríkisráðherra, segir þetta ekki rétt. „Það er tóm vitleysa að það hafi verið umræða um það innan Samfylkingar að slíta stjórnarsamstarfi. Samfylkingin er ábyrgur flokkur og henni kæmi aldrei til hugar að hlaupast undan árum á þeim tímum þegar mestar holskeflur ganga yfir íslenskt samfélag. Ég, sem staðgengill utanríkisráðherra, hef hvorki tekið þátt í samræðum við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, aðra þingmenn Samfylkingar né nokkurn mann um að slíta samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn. Það er hugarburður og uppspuni.“