Stjórn Samtaka iðnaðarins telur nauðsynlegt að ríkisstjórn og Seðlabanki marki sér stefnu til langs tíma í efnahagsmálum, tali skýrt og grípi þegar í stað til ráðstafana til þess að greiða úr alvarlegum lausafjárskorti, koma jafnvægi á gengi krónunnar og dragi þannig úr neikvæðum áhrifum niðursveiflu efnahagslífsins.
Í ályktun samtakanna segir að brýnt sé að tryggja eðlilegt flæði gjaldeyris á markaði með öllum tiltækum ráðum, s.s. gjaldeyrisskiptasamningum.
„Það er nauðsynlegt til þess að koma fjármagni inn á uppþornaðan íslenskan lánamarkað. Seðlabankar um allan heim keppast við að smyrja hjól atvinnulífsins með lausafé. Það ætti íslenski Seðlabankinn líka að gera.“
Samtökin hvetja jafnframt til lækkunar stýrivaxta.