Æskilegt að framlengja kjarasamninga

Geir Haarde ræðir við fréttamenn í ráðherrabústaðnum í dag
Geir Haarde ræðir við fréttamenn í ráðherrabústaðnum í dag

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, sagði við fréttamenn í kvöld að eitt af því, sem rætt hefði verið um við aðila vinnumarkaðar væri hvort framlengja eigi gildandi kjarasamninga. Hann sagði vissulega æskilegt við þessar aðstæður ef hægt væri að framlengja kjarasamninga, sem ella væru lausir í febrúar eða mars á næsta ári.

Geir ræddi við fréttamenn í Ráðherrabústaðnum laust eftir klukkan 18 í kvöld en hann hefur setið þar á fundum í allan dag. Geir vildi lítið upplýsa um það sem þar hefði farið fram en sagði, að aðilar vinnumarkaðar muni koma til fundar við ráðherra í kvöld klukkan 20. Hann sagði að hluti þeirra aðgerða, sem hafa verið  í undirbúningi, þyrfti að vera frágenginn áður en fjármálamarkaðir verða opnaðir hér á landi í fyrramálið; annað mætti bíða.

Hann sagðist ekkert geta tjáð sig um spurningar fréttamanna um hvort Kaupþing muni kaupa Glitni eða hvort Landsbankinn yrði seldur nauðungarsölu til Kaupþings. Hann vísaði til þess að stjórnir banka tækju ákvarðanir um sameiningar.

Geir sagðist ekki geta svarað því hvort samningar hefðu náðst við erlenda seðlabanka. Þegar Geir var spurður hvað rætt hefði verið um við forráðamenn bankanna í dag sagðist hann ekki geta sagt það en það væri bankakreppa í heiminum, hugsanlega sú mestra sem orðið hefði frá árinu 1914 en kreppan væri orðin alvarlegri úti í heimi en sú sem varð á fjórða áratug síðustu aldar.

„Það reynir hver að bjarga sjálfum sér við þessar aðstæður," sagði Geir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert