Biðlað til helstu vinaþjóða

Björgólfur Thor tjáði sig ekki við fjölmiðla frekar en aðrir …
Björgólfur Thor tjáði sig ekki við fjölmiðla frekar en aðrir bankamenn sem mættu í Ráðherrabústaðinn fyrir stundu.

Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra, staðfesti við fjölmiðla fyrir stundu að biðlað hefði verið til seðlabanka „okkar helstu vinaþjóða“ um aðstoð út úr efnahagsvandanum, en ekki lægi fyrir hver viðbrögð þeirra væru.

Hann sagði að forsætisráðherra myndi gerar grein fyrir aðgerðapakkanum í heild þegar hann væri tilbúinn. Björgvin er nú mættur aftur til fundar í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu ásamt forkólfum bankanna, þ.e. Sigurði Einarssyni og Hreiðari Má Sigurðssyni frá Kaupþingi, Björgólfi Thor Björgólfssyni og þeim Sigurjóni Þ. Árnasyni og Halldóri J. Kristjánssyni hjá Landsbankanum.

Þá er Jón Steinsson, dósent í hagfræði við Columbia-háskóla, einnig mættur til fundar að nýju.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir fór af fundi í Ráðherrabústaðnum um þrjúleytið í dag og sagði þá að menn væru að vinna vinnuna sína. „Er ekki betra að vanda til verka heldur en að fara út með eitthvað sem ekki er rétt,“ sagði Þorgerður.

„Auðvitað eru menn að reyna að setja sér tímamörk og koma með eitthvað fyrir morgundaginn,“ sagði Þorgerður og bætti við að menn væru að vinna vinnuna sína og nú væri að nýju verið að ræða við Samtök atvinnulífisin og verkalýðshreyfinguna.

Aðspurð um ásakanir um lausmælgi og að hún tæki illa eftir á ríkisstjórnarfundi, vegna ummæla Davíðs Oddsonar um þjóðstjórn sagði Þorgerður „Þetta mál snýst ekkert um Davíð Oddson eða Jón Ásgeir en það er gott að vita að hann ætlar að fara að gæta orða sinna.“

Össur Skarphéðinsson er einnig kominn aftur til fundar í ráðherrabústaðnum en þagði þunnu hljóði undir spurningum blaðamanna.

Björgvin G. Sigurðsson á tröppum Ráðherrabústaðsins
Björgvin G. Sigurðsson á tröppum Ráðherrabústaðsins mbl.is/Brynjar Gauti
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka