Björn Bjarnason dómsmálaráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra, Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra og Sturla Böðvarsson, forseti Alþingis, hafa nú bæst í hóp þeirra sem sitja fundi ráðherra, embættismanna og sérfræðinga í Ráðherrabústaðnum.
Þorgerður Katrín vildi ekki tjá sig við blaðamenn er hún mætti til fundarins en neitaði jafnframt að neita því að verið væri að ræða hugsanlega sameiningu bankanna.
Fjórir ráðherrar ríkisstjórnarinnar, þeir Geir H. Haarde, forsætisráðherra, Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra, Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra og Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra, áttu fundi með forsvarsmönnum stærstu bankanna í Ráðherrabústaðnum í morgun.
Stjórn Samtaka atvinnulífsins situr nú einnig á fundi.