„Fráleitt að Glitnir hefði orðið gjaldþrota"

Dr. Richard Portes, prófessor við London Business School sem skrifað hefur skýrslu fyrir Viðskiptaráð Íslands um stöðu og framþróun íslenska fjármálakerfisins, segir í viðtali við Fréttablaðið í dag að það hafi verið alvarleg mistök að bregðast við lausafjárkreppu Glitnis með þjóðnýtingu.

„Ástandið sem nú geisar á alþjóðlegum fjármálamörkuðum er grafalvarlegt, en það tengist ekkert íslenskum aðstæðum sérstaklega. Athygli umheimsins beindist hins vegar öll að íslenska fjármálakerfinu við hina óvæntu þjóðnýtingu Glitnis, sem verða að teljast afar afdrifarík afglöp af hálfu Seðlabanka Íslands," segir hann.

„Þjóðnýtingin er risastórt inngrip sem vekur mikla athygli og fleiri spurningar en svör. Við bætist að formaður bankastjórnar Seðlabankans segir að án þjóðnýtingar hefði Glitnir orðið gjaldþrota. Það eru fráleit ummæli um banka sem glímir við tímabundinn lausafjárskort við furðulegar aðstæður á alþjóðamörkuðum, en er að öðru leyti vel rekinn og með góða eiginfjárstöðu. Þau ættu fremur við um banka sem er hreinlega kominn í greiðsluþrot. Ég hef engan heyrt halda því fram að Glitnir hafi verið svo illa staddur," segir Portes og bætir við að þjóðnýtingin komi mjög illa við Kaupþing og Landsbankann, enda hafi vantraust í garð íslensks efnahagslífs aukist við þetta um allan helming.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert