Allir ráðherrar ríkisstjórnarinnar eru nú mættir til fundar í Ráðherrabústaðnum og sagði Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra, þegar hann mætti fyrir stundu að verið væri að kynna ríkisstjórninni í heild það sem fram hefði komið á fundum dagsins
Bankastjórar Landsbankans, þeir Sigurjón Þ. Árnason og Halldór J. Kristjánsson eru einnig mættir aftur til fundar. „Við erum bara komnir til að veita sem bestar upplýsingar,“ svaraði Halldór aðspurður hvers vegna þeir væru boðaðir til fundarins.
Ingimundur Friðriksson seðlabankastjóri og Tryggvi Þór Herbertsson fjármálaráðgjafi forsætisráðherra eru einnig staddir í Ráðherrabústaðnum.
Fulltrúar vinnumarkaðarins og verkalýðsins fóru af fundi með forsætisráðherra um níuleytið í kvöld eftir klukkustundar langan fund. Stuttu eftir að fundinum lauk komu í Ráðherrabústaðinn Glitnismenn, þeir Lárus Welding og Þorsteinn Már Baldvinsson auk Óskars Magnússonar en þeir eru nú farnir.