„Við höfum verið á óformlegum fundum í morgun og í gær en erum í raun bara að bíða eftir kallinu,“ segir Hrafn Magnússon, framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða.
Hann segist ekki gera ráð fyrir öðru en að vera boðaður á fund í Ráðherrabústaðnum þegar líður á daginn. „Já það verður að gerast, öll okkar vinna byggist á því að ná endum saman svo við búumst við því.“
„Við lögðum fram ákveðna aðgerðaráætlun fyrir stjórnvöld í gær og hún er væntanlega í skoðun núna. En það eru fleiri aðilar en stjórnvöld sem þurfa að koma að því, þetta verður að fara í sérfræðingavinnu og stjórnvöld kalla þá aðila til sín, þ.á.m. Seðlabankann og Fjármálaeftirlitið. Við höfum ekki heyrt neitt ennþá en bíðum eftir kallinu.“
Samtök atvinnulífsins hafa einnig rætt málin sín á milli í dag og við Alþýðusambandið, en hafa ekki verið kölluð til fundar við ríkisstjórnina enn, að sögn Vilhjálms Egilssonar. „Við höfum nú reiknað frekar með því að vera kölluð til fundar í dag en það eru ekki við sem ráðum ferðinni,“ segir Vilhjálmur.