Segja nóg lausafé í Borgarnesi

Enginn skortur var á lausafé á Sauðamessu í Borgarnesi.
Enginn skortur var á lausafé á Sauðamessu í Borgarnesi. mynd/Birna

Þótt ýmsar blikur séu á lofti í fjármálaheiminum og ekki mikið af lausafé í umferð var enginn skortur á því í Borgarnesi í gær þegar  Sauðamessa hófst þar með fjárrekstri  í gengum bæinn.

Rekið var frá Dvalarheimili aldraðra, á móti Hyrnunni, eftir aðalgötunni að Skallagrímsgarði. Þar var búið að koma fyrir rétt og þangað sá mannfjöldinn um að koma fénu í örugga vörslu.

Að sögn aðstandenda hélst fjármagnið óbreytt á leið þess í gegnum bæinn en ekki varð nein ávöxtun. Var fjöldi manns  mættur í Skallagrímsgarð til að finna sauðinn í sjálfum sér, eins og segir á heimasíðu messunnar.

Ýmis varningur tengdur sauðkindinni var á boðstólum, ásamt skemmtiatriðum og svo er maður manns gaman.

Gísli Einarsson fréttamaður og Björn Bjarki Þorsteinsson framkvæmdastjóri DAB voru yfirsauðir og höfðu veg og vanda af Sauðamessunni.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert