Nýr formaður UVG

Steinunn Rögnvaldsdóttir
Steinunn Rögnvaldsdóttir

Steinunn Rögnvaldsdóttir hefur verið kjörinn nýr formaður Ungra vinstri grænna, á landsfundi þeirra sem haldinn var nú um helgina. Hún tekur við af Auði Lilju Erlingsdóttur sem gegnt hefur embættinu undanfarin 2 starfsár en gaf ekki kost á sér aftur.

Fundurinn samþykkti einni að leggja fram sparnaðaráætlun fyrir nokkurra tugmiljarða sparnaði í óþörfum verkefnum ríkissjóðs. Áætlun UVG verður kynnt á næstu dögum. 40 ungliðar frá öllum landshornum sátu fundinn og var efnahagsvandinn ofarlega á baugi, að því er segir í fréttatilkynningu.

Meðal ályktanna fundarins er krafa Ungra vinstri grænna um að mynduð verði þjóðstjórn með aðkomu allra stjórnmálaflokka. Ríkisstjórnin undir forystu Geirs H. Haarde sé rúin trausti þjóðarinnar og því sé þörf á nýjum forystumönnum.

„Ung vinstri græn fordæma stjórnvöld fyrir það andvaraleysi sem einkennt hefur efnahagsstjórnun landsins. Þrátt fyrir ítrekanir aðvaranir Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, hagfræðinga og Seðlabanka Íslands hafa stjórnvöld brugðist skyldum sínum og með aðgerðaleysi sínu orðið til þess að íslenskt efnahagslíf er nú í áður óþekktri niðursveiflu sem ekki sér fyrir endann á,“ segir í tilkynningunni.

Þá segir í ályktun að Ung vinstri græn harmi að „hrun hins óhefta og ómannúðlega heimskapítalisma skuli nú bitna á þeim sem síst skyldi [...] Ung vinstri græn telja einsýnt að dagar þessa óhefta heimskapítalisma séu senn taldir.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert