Lífeyrissjóðirnir hafa síðustu vikum og mánuðum verið að færa heim fjármuni í talsvert miklum mæli. Ekki liggur hins vegar fyrir um hversu háar upphæðir er að ræða, en þó er ljóst að um tugi milljarða er að ræða.
Samkvæmt tölum Seðlabankans áttu lífeyrissjóðirnir 493 milljarða í erlendum eignum í lok júlí. Tveimur mánuðum áður námu þessar eignir 529 milljörðum. Nýjar tölur um erlendar eignir lífeyrissjóðanna liggja ekki fyrir og því hafa forráðamenn lífeyrissjóðanna ekki heildaryfirlit um hversu mikla fjármuni sjóðirnir hafa flutt heim á undanförnum vikum og mánuðum.
Það liggur hins vegar fyrir að þrátt fyrir að lífeyrissjóðirnir hafi í einhverjum mæli verið að flytja heim fjármuni hefur gengi krónunnar fallið hratt. Þessi tilfærsla virðist því ekki hafa dugað til að halda aftur af gengisfalli krónunnar.
Forystumenn lífeyrissjóðanna lögðu í gær fyrir ríkisstjórnina minnisblað um aðkomu sjóðanna að lausn lausafjárvandans. Í því er gert ráð fyrir að lífeyrissjóðirnir flytji heim 200 milljarða. Sérfræðingar ríkisstjórnarinnar eru að fara yfir tillögurnar og reiknað er með að stjórnendur lífeyrissjóðanna verði kallaðir aftur til fundar síðar í dag.
Eignir lífeyrissjóðanna heima og erlendis hafa fallið í verði í því umróti sem verið hefur í efnahagslífi heimsins. Við fall krónunnar hækka hins vegar erlendar eignir lífeyrissjóðanna í verði og því má segja að hagstæðar aðstæður séu núna fyrir lífeyrissjóðina að breyta þessum erlendu eignum í íslenskar krónu.