Alvarlegri en talið var

Geir H. Haarde verst allra frétta af niðurstöðum funda helgarinnar og viðbrögðum ríkisstjórnarinnar vegna fjármálakreppunnar. Vonast er til þess að ríkisstjórnin gefi frá sér einhverja tilkynningu í dag um til hvaða aðgerða verður gripið. Fulltrúar Lífeyrissjóðanna hittu fjámálaráðherra í fjármálaráðuneytinu í morgun en þeim fundi verður haldið áfram eftir hádegi. Fjöldi annarra funda er fyrirhugaður sem forsætisráðherra vildi ekki skýra nánar frá.

Verkalýðshreyfingin lítur svo á að stjórnvöld telji sig geta leyst málið án atbeina hennar eftir yfirlýsingar forsætisráðherra í gær en ráðherrann sagði vissulega gert ráð fyrir aðkomu hennar. Samræðurnar núna væru fyrst og fremst milli aðila á markaði en það væri margt í gangi á sama tíma.

Geir segir mikilvægast að almenningur geri sér grein fyrir því að allar innistæður séu tryggðar. Aðspurður um aðstoð til handa þeim sem skulduðu og væru að fara í þrot, sagðui hann mörg verkefni bíða meðan þau brýnustu væru leyst.

Stjórnarandstöðunni virtist brugðið þegar hún kom af fundi með forsætisráðherra en forystumenn hennar lögðu áherslu á að málið væri alfarið á ábyrgð ríkisstjórnarinnar sem hafi ekki tekið í sáttahönd stjórnarandstöðu. Guðjón Arnar Kristjánsson formaður Frjálslynda flokksins sagði stöðuna mun alvarlegri en hann hefði talið fyrir helgi. Formennirnir sögðust trúa því að það kæmi yfirlýsing frá ríkisstjórninni innan nokkurra klukkustunda um viðbrögð.

 
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert