Eftir Jón Pétur Jónsson
Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra segir aðgerðir stjórnvalda fyrst og fremst miða að því að vernda heimilin í landinu og koma þeim í skjól. Hún segir þegar sé hafin vinna í félagsmálaráðuneytinu um að setja á laggirnar þjónustuver þar sem fólk getur leitað upplýsinga og fengið ráðgjöf.
„Það eru margvíslegir erfiðleikar sem munu steðja að fólki sem við
þurfum að taka á, og þá er mikilvægt að að hafa svona eitt þjónustuver
fyrir fólkið sem þarf að leita upplýsinga o.s.frv.“
Þá segir hún að verið sé að skoða að undir félagamálaráðuneytið heyri sérstök vinnumálastofnun, sem muni mæða mikið á fari uppsögnum fjölgandi.
„Þetta er það sem við viljum leggja fram til að koma til móts við
fólkið og veita þeim eins góða þjónustu eins og við mögulega getum í
þessum hremmingum. Fólk þarf kannski að leita til margra staða með það
sem á bjátar og sín vandræði,“ segir Jóhanna.
Aðspurð segist hún vona að ástandið verði ekki langvinnt. Í hennar huga sé nú mikilvægast að vel sé haldið utan um heimilin í landinu, og fólkinu sé veitt öll sú aðstoð sem það þurfi á að halda. „Við munum vinna eins hratt og við getum,“ segir Jóhanna og bætir við: „Uppbyggingarstarfið er hafið og nú er leiðin bara upp á við.“