Geir H. Haarde, forsætisráðherra, ræddi við Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, í gær, að því er kemur fram á fréttavef Bloomberg.
Mikil umræða var í breskum fjölmiðlum um helgina um erfiða stöðu íslensku bankanna og hugsanleg áhrif á efnahagslíf í Bretlandi.
Fram kemur á fréttavef Bloomberg að Brown hafi einnig rætt við Anders Fogh Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur og Nicolas Sarkozy, forseta Frakklands, í gær sem og framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Seðlabanka Evrópu.
Bloomberg segir, að breska ríkisstjórnin sé nú undir auknum þrýstingi að kaupa hlut í breskum bönkum og hækka tryggingar á innlánum í þarlendum bönkum. Stjórnvöld þar í landi fara nú yfir áhrif þeirrar ákvörðunar þýskra stjórnvalda um helgina, að ábyrgjast allar innistæður í þýskum bönkum. Gert er ráð fyrir að Alistair Darling, fjármálaráðherra Breta, gefi yfirlýsingu um málið á breska þinginu í dag.