Stuttum ríkisstjórnarfundi er lokið í stjórnarráðinu og að fundi loknum vildi Geir H. Haarde, forsætisráðherra, lítið tjá sig um stöðu mála annað en að staðan væri mjög alvarleg. Hann mun hitta stjórnarandstöðuna nú á fundi í húsakynnum Alþingis og forsvarsmenn lífeyrissjóðanna klukkan 11 í ráðherrabústaðnum í Tjarnargötu.
Í nótt sendi ríkisstjórnin frá sér eftirfarandi yfirlýsingu:
„Ríkisstjórn Íslands áréttar að innstæður í innlendum viðskiptabönkum og sparisjóðum og útibúum þeirra hér á landi verða tryggðar að fullu.
Með innstæðum er átt við allar innstæður almennra sparifjáreigenda og fyrirtækja sem trygging innstæðudeildar Tryggingasjóðs innstæðueigenda tekur til."
Þetta þýðir að ríkissjóður tryggir allar innistæður sparifjáreigenda sem falla undir skilgreiningu innistæðudeildar Tryggingasjóðsins og þær fjárhæðir sem eru hærri en tryggingasjóður tryggir með formlegum hætti samkvæmt lagana hljóðan mun ríkissjóður tryggja.