Höfum meira andrými

Geir H. Haarde ræðir við fréttamenn.
Geir H. Haarde ræðir við fréttamenn. mbl.is/Brynjar Gauti

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, sagði eftir þingflokksfund Sjálfstæðisflokks í kvöld, að eftir fundahöld dagsins væri ljóst að meira andrými væri fyrir næstu skref í málinu, eins og hann orðaði það.

Hann sagði, að ekki væri búið að ganga frá samkomulagi við lífeyrissjóði um að þeir færi erlendar eignir heim vegna þess að enn væri ósamið um allskonar tæknileg atriði.

Hann vildi ekki gefa neitt upp varðandi viðræður við Seðlabanka Evrópu og norrænu seðlabankana. Inntur eftir því hvort rétt væri að bankarnir hefðu fallist á að selja eignir fyrir 200 milljarða til jafns við þá upphæð sem lífeyrissjóðirnir hyggðust flytja inn til landsins, eins og þeir hefðu gert kröfu um vildi hann engu svara heldur. „Það er mál sem bankarnir verða að ákveða, hvað þeir geta selt mikið og komið með heim.“

Geir ítrekaði, að innstæður á reikningum í bönkum og sparisjóðum hér á landi verði tryggðar að fullu, það ábyrgist ríkisstjórnin.

Hann sagðist myndu hitta forustumenn stjórnarandstöðunnar klukkan 9:30 í fyrramálið til að setja þá inn í mál en ekki hefði gefist tími til þess í dag.  

Hann mun halda fundarhöldum áfram í kvöld en gaf ekki upp með hverjum hann myndi funda og sagði í léttum tóni að það yrði leynifundur að næturlagi.

Björgvin G. Sigurðsson sagði við sama tækifæri að ekki hefði unnist tími til að ganga frá þeim þætti málsins sem sneri að lífeyrissjóðunum, enda hefði gríðarlegt álag verið á ríkisstjórninni um helgina.

„Við náðum fínum áfanga um helgina. Það er ekki næstum því sama spenna, háspenna í ástandinu eins og var. Við erum búin að eiga mjög gagnlegar og fínar viðræður við bankana og lífeyrissjóðina [...] Svo eigum við bara eftir að lenda því, bæði hvað varðar kjarasamninga, innkomu lífeyrissjóðsfjármagns og niðurtröppun bankanna út á við sem í rauninni er stóra málið. Svo liggur það afdráttarlaust eftir helgina, til að bæta því við, að við munum ábyrgjast allar innistæður í bönkunum án hámarks.“

Þá sagði Björgvin að ekki stæði á bönkunum að koma með fjármagn inn, þeir séu mjög áfram um að trappa niður eignir erlendis og þar skorti engan samstarfsvilja.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert