Glitnir segir í yfirlýsingu, að eftir yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar frá því í gærkvöldi sé ljóst að allar innistæður viðskiptavina Glitnis hér á landi verða tryggðar að fullu. Þá hafi ítrekað komið fram á fundum forstjóra og stjórnarformanns Glitnis með fulltrúum stjórnvalda um helgina, að Glitnir verði í meirihlutaeigu ríkisins eftir hluthafafund bankans næsta laugardag og að ríkið muni styðja bankann.
Þorsteinn Már Baldvinsson, stjórnarformaður Glitnis, segir í yfirlýsingunni, að stærstu hluthafar Glitnis hafi lýst stuðningi við tilboð ríkisins, sem lagt verði fyrir hluthafafund bankans.
„Við höfum átt mjög gagnleg samtöl við fulltrúa ríkisstjórnarinnar og allra stjórnmálaflokka um helgina og það er ljóst að víðtækur stuðningur er við þetta samkomulag. Ég fagna yfirlýsingu forsætisráðherra um að allar íslenskar innstæður okkar viðskiptavina hér á landi, óháð upphæð, séu tryggðar. Við munum áfram vinna að því að undirbúa sölu á eignum erlendis. Sú vinna hófst hjá Glitni snemma á þessu ári. Glitnir er í þessu sambandi í góðri stöðu enda með góðar og traustar eignir,” segir Þorsteinn.