Launþegasamtök ekki boðuð til funda

Fulltrúar aðila vinnumarkaðar sátu fundi með ráðherrum um helgina.
Fulltrúar aðila vinnumarkaðar sátu fundi með ráðherrum um helgina. mbl.is/Brynjar Gauti

Samtök launþega hafa ekki verið boðuð til fundar með stjórnvöldum og Grétar Þorsteinsson, forseti ASÍ, segist ekki hafa minnstu hugmynd um hver staðan sé núna.

„Við komum að þessu með þeim hætti að við væru þátttakendur í einhverjum stórum pakka eins og um var talað. Okkar aðkoma byggðist á því að þau mál sem við erum með uppi væru þar inni og ekki að eitthvað væri plokkað út úr því. Ég held að aðkoma okkar sé ekki inn í myndinni á þessu augnabliki, þó ég ætli ekkert að fullyrða um hvað gerist á næstu dögum," segir hann.

Grétar segir að ASÍ, félög opinberra starfsmanna og Samtök atvinnulífsins hafi átt rúmlega klukkustundar langan fund með ríkistjórninni kl.  20 í gærkvöldi og þeir hafi svo átt von á að verða aftur kallaðir til fundar síðar um kvöldið en ekkert hafi heyrst í ríkisstjórninni eftir þetta.

Miðstjórn ASÍ kom svo saman seint í gærkvöldi. „Það næsta sem við heyrum þegar við erum á miðjum miðstjórnarfundi er að komið hafi fram í viðtali við forsætisráðherra að búið væri að leysa málið. Auðvitað fagnar maður því," segir Grétar.

„Við vorum vöruð við því á fundi á miðvikudaginn í seinustu viku og aftur á föstudaginn að gríðarleg vá væri fyrir dyrum hjá þjóðinni. Við fengum hins vegar aldrei svör við því hver hún væri. Það gerði okkur óskaplega erfitt fyrir að ræða þessi mál í okkar baklandi. Það fyrst sem fólk spurði um var hvert er vandamálið? Við þráspurðum um þetta á hverjum fundi með ríkisstjórninni.

Forystumenn landssambanda og stærstu félaga ASÍ komu strax fyrir helgina að vinnunni. ,,Við fengum svo bakland allra landssambandanna í hús hjá sáttasemjara í gær, tugir manna komu utan af landi og alls komu saman á annað hundrað manns," segir Grétar og bætir við að á þeim fundi hafi fengist staðfest að forystan hefði fulla heimild til að vinna áfram í málinu eins og lagt var upp með.

Flestir forystumenn verkalýðsfélaga af landsbyggðinni sem komu til fundarhaldanna yfir helgina eru nú aftur farnir til síns heima. ,,Ég er hræddur um að það þurfi mikið vatn að renna til sjávar áður en þetta fólk er tilbúið að koma að málinu aftur," segir Grétar.

Að sögn Grétars voru viðræðurnar Samtök atvinnurekenda nánast að öllu leyti til lykta leiddar. „Það var enginn ágreiningur okkar í milli," segir Grétar en hann kveðst vera bundinn trúnaði um innihaldið. ,,Við fengum aldrei tækifæri til að leggja málið upp við ríkisstjórnina. Það er til sameiginleg plagg frá þessum  aðilum, sem hefði einhvern tíma þótt tíðindi og einhvern tíma hefði ríkisstjórnum þótt mikill ávinningur af því," segir Grétar.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert