Mikil óvissa ríkir enn

Gylfi Arnbjörnsson
Gylfi Arnbjörnsson

Gylfi Arnbjörnsson, framkvæmdastjóri ASÍ, bendir á að óvissan sé mikil, og menn viti ekki á þessari stundu hvernig heimildir væntanlegra neyðarlaga verði nýttar og hversu langt verði gengið við nýtingu þeirra heimilda.

„Hér er um grafalvarlegt mála að ræða. Við verðum að nota næstu daga og kannski viku til að átta okkur á umfanginu. Það er mjög mikilvægt að ríkisstjórnin fái heimildir til að geta tryggt að hjól atvinnulífsins haldi áfram að snúast. Það verður að tryggja að þetta hafi sem minnst áhrif á greiðslukerfi landsins. Fjármálakerfi okkar hér innanlands er gangverk hagkerfisins og áhersla verður lögð á það næstu daga að það virki. Við munum að sjálfsögðu leggja því allt það lið sem við getum,“ segir Gylfi.

Hann segir ekki hægt að svara því á þessari stundu hver áhrifin verða á kjör þjóðarinnar, en telja megi víst að þau geti orðið alvarleg. „Fyrst og fremst skiptir máli núna að lágmarka skaðann og halda starfseminni gangandi,“ segir hann.

Spurður hvort megi gera ráð fyrir að kaupmáttur launa minnki á næstunni og kjörin versni segir Gylfi mjög mikilvægt að tryggja greiðslukerfin gangi eðlilega fyrir sig.

„Ef okkur tekst það, þá eru verðmæti og tækiæri til staðar hér á landi, sem gera okkur kleift að vinna okkur út úr þessu. Ef greiðslukerfin og gjaldeyrismarkaðirnir komast í samt lag sem fyrst þá er hægt að ráðast í að reyna að færa gjaldmiðilinn okkar nær því sem undirliggjandi er. Í augnablikinu er hann í frjálsu falli vegna takarkaðra viðskipta og skorts á erlendu fé,“ segir Gylfi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert