„Ég er sleginn, eins og allir aðrir. Það sem ég held að skipti mestu máli núna er að horfa til framtíðarinnar og komast í gegnum þá erfiðleika sem blasa við. Við getum tekist á við þá og við getum komist upp úr þessu,“ segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.
„Það sem þarf að gera er að slá ákveðinn hring utan um íslenskt atvinnulíf og íslensk heimili. Þannig að við fáum eðlilega bankaþjónustu og öll greiðslukerfi séu gangandi, og við getum borgað okkar reikninga og fengið okkar laun,“ segir Vilhjálmur.
Hann segir að Íslendingar muni komast í gegnum þetta með því að halda hjólum atvinnulífsins gangandi. „Ég hef trú á því, og veit það, að við svona aðstæður þá eru til leiðir til að halda hlutunum gangandi,“ segir Vilhjálmur, en bendir á að um áfall sé að ræða sem snerti allar fjölskyldur og öll fyrirtæki á landinu.
„Við höfum orðið fyrir áfalli áður, og með alla okkar þekkingu og allt okkar góða fólk, allar okkar auðlindir og möguleika, þá munum við komast upp úr þessu.“
Hann segir að bankakerfið sé að riða til falls, Landsbankinn hafi barist fyrir lífi sínu í dag. „Það er ekki ennþá komið í ljós hvernig sú barátta gengur.“ Hann segir að ef að bankinn fari í þrot, og aðrir bankar fylgi á eftir, þá tapist gífurleg verðmæti. Aðspurður segist hann ekki vita hver staðan sé hjá Kaupþingi.
Vilhjálmur segir að eitt af verkefnunum hinna nýju fjármálastofnana sé að koma í veg fyrir gjaldþrot hjá fyrirtækjum og einstaklingum eins og frekast sé unnt.
„Við erum á botninum. Nú liggur leiðin bara upp, og það er spurning hversu brött leiðin upp á við er,“ segir Vilhjálmur.