Ný lög um fjármálamarkaði

Guðni Ágústsson krafðist þess að Geir H. Haarde væri í …
Guðni Ágústsson krafðist þess að Geir H. Haarde væri í þingsalnum þegar hann flutti ræðu um neyðarlagafrumvarpið. mbl.is/Golli

Frumvarp um fjármálamarkaði var samþykkt sem lög frá Alþingi seint í kvöld þegar klukkan var tuttugu mínútur gengin í tólf. 62 þingmenn af 63 voru viðstaddir en mjög óvanalegt er að svo margir séu við atkvæðagreiðslu. Lögin taka gildi um leið og þau hafa verið birt í Stjórnartíðindum.

50 þingmenn stjórnarflokkanna og Framsóknarflokksins greiddu atkvæði með lögunum í heild en framsóknarmenn sátu hjá í atkvæðagreiðslu um nokkur ákvæði þeirra. Þingmenn Vinstri grænna og Frjálslynda flokksins sátu hjá.

Fjármálaeftirlitið fær, samkvæmt lögunum, afar víðtækar heimildir til að grípa inn í rekstur fjármálafyrirtækja. Getur stofnunin gripið til sérstakra ráðstafana telji það þörf á vegna sérstakra aðstæðna eða atvika, í því skyni að takmarka tjón eða hættu á tjóni á fjármálamarkaði.

Þær sérstöku aðstæður eða atvik, sem tillgreind eru í lögunum, eru sérstakir fjárhags- og/eða rekstrarerfiðleika hjá fjármálafyrirtæki, m.a. líkur á að það geti ekki staðið við skuldbindingar sínar gagnvart viðskiptavinum eða kröfuhöfum, forsendur afturköllunar starfsleyfis séu líklega fyrir hendi eða líkur standi til að það geti ekki uppfyllt kröfur um lágmarks eigið fé og að önnur úrræði Fjármálaeftirlitsins séu ekki líkleg til þess að bera árangur.

Þá er er m.a. átt við ef fjármálafyrirtæki hefur óskað eftir eða fengið heimild til greiðslustöðvunar eða nauðasamninga eða óskað eftir gjaldþrotaskiptum eða verið úrskurðað gjaldþrota.

Við þessar aðstæður getur Fjármálaeftirlitið boðað til hluthafafundar eða fundar stofnfjáreigenda. Fulltrúi Fjármálaeftirlitsins skal stýra fundi og hefur hann málfrelsi og tillögurétt. Fjármálaeftirlitið er við þessar aðstæður ekki bundið af ákvæðum hlutafélagalaga eða samþykkta fjármálafyrirtækis um fundarboðun, fresti til fundarboðunar eða tillögugerðar til breytinga á samþykktum.

Séu aðstæður mjög knýjandi getur Fjármálaeftirlitið tekið yfir vald hluthafafundar eða fundar stofnfjáreigenda í því skyni að taka ákvarðanir um nauðsynlegar aðgerðir, m.a. takmarkað ákvörðunarvald stjórnar, vikið stjórn frá að hluta til eða í heild sinni, tekið yfir eignir, réttindi og skyldur fjármálafyrirtækis í heild eða að hluta eða ráðstafað slíku fyrirtæki í heild eða að hluta meðal annars með samruna þess við annað fyrirtæki. 

Hafi ákvörðun verið tekin um að víkja stjórn fjármálafyrirtækisins frá er Fjármálaeftirlitinu heimilt, að skipa því fimm manna skilanefnd sem fari með allar heimildir stjórnar samkvæmt ákvæðum hlutafélagalaga. 

Verði það niðurstaða Fjármálaeftirlitsins að samruni viðkomandi fjármálafyrirtækis við annað tryggi best þá hagsmuni sem í húfi eru, gilda ákvæði samkeppnislaga og samrunaákvæði laga um fjármálafyrirtæki ekki um samrunann.

Ef nauðsyn krefur getur Fjármálaeftirlitið takmarkað eða bannað ráðstöfun fjármuna og eigna fjármálafyrirtækis. Fjármálaeftirlitinu er heimilt að taka í sínar vörslur þær eignir sem mæta eiga skuldbindingum fjármálafyrirtækis og láta meta verðmæti eigna og ráðstafa þeim til greiðslu áfallinna krafna eftir því sem þörf krefur. Þá er Fjármálaeftirlitinu heimilt að rifta sölu eigna sem átt hefur sér stað allt að mánuði áður en Fjármálaeftirlitið greip til sérstakra ráðstafana samkvæmt þessari grein.

Fjármálaeftirlitið getur krafist þess að fjármálafyrirtæki sæki um greiðslustöðvun eða leiti heimildar til nauðasamninga í samræmi við ákvæði laga um gjaldþrotaskipti  ef það er talið nauðsynlegur liður í að leysa úr fjárhags- eða rekstrarvanda fyrirtækisins. Val fyrirtækis á aðstoðarmanni við greiðslustöðvun skal staðfest af Fjármálaeftirlitinu. Fjármálaeftirlitið getur jafnframt krafist þess að fjármálafyrirtæki verði tekið til gjaldþrotaskipta í samræmi við ákvæði laga um gjaldþrotaskipti.

Forstjóri, starfsmenn og stjórnarmenn Fjármálaeftirlitsins eru ekki skaðabótaskyldir vegna ákvarðana og framkvæmdar samkvæmt lögunum. Þá er tekið fram, að ríkissjóður beri ábyrgð á kostnaði af framkvæmd aðgerða Fjármálaeftirlitsins á grundvelli laganna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka