Rætt við frændur um aðstoð

Seðlabanki Íslands
Seðlabanki Íslands mbl.is/Ómar

Sérfræðingar á vegum Seðlabankans og bankastjórar bankans voru í „stöðugum viðræðum“ við seðlabanka Danmerkur, Noregs og Svíþjóðar alla helgina, samkvæmt upplýsingum frá Seðlabankanum. Snerust viðræðurnar meðal annars um að virkja gjaldeyrisskiptasamninga sem Seðlabanki Íslands hefur við seðlabankana þrjá.

Breska dagblaðið Sunday Telegraph segir að Seðlabanki Íslands hafi um helgina rætt við norræna seðlabanka um að þeir veiti Íslandi stuðning vegna gjaldeyriskreppunnar hér á landi. Viðræðurnar snúa að því að veita jafnvirði 1.560 milljarða króna inn í íslenska bankakerfið frá norrænu seðlabönkunum og íslensku lífeyrissjóðunum.

Heimildir á grundvelli gjaldeyrisskiptasamninganna hafa ekki verið nýttar ennþá en Seðlabankinn hefur heimildir til að taka út 500 milljónir evra hjá hverjum seðlabanka, 1.500 milljónir evra samtals, sem eru rúmlega 230 milljarðar króna, til þess að styrkja gjaldeyrisforðann.

Norski vefmiðillinn Økonomisk rapport [ØR] sagði frá því í gær að íslensk stjórnvöld væru í viðræðum við norska seðlabankann og aðra evrópska seðlabanka um aðstoð í kjölfar þjóðnýtingar Glitnis. Í frétt ØR kom fram að íslensk stjórnvöld væru að setja saman björgunaráætlun fyrir hagkerfið upp á 10 milljarða evra eða um 1.560 milljarða króna.

Vefútgáfa bandarísku sjónvarpsstöðvarinnar CNN fjallaði um ástandið í íslensku efnahagslífi í gær. Þar sagði að samanlagðar skuldbindingar íslensku bankanna næmu 100 milljörðum evra en verg þjóðarframleiðsla landsins væri aðeins 14 milljarðar evra.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert