Sameiginleg aðkoma að Glitni

mbl.is/Brynjar Gauti

Stjórnendur Kaupþings og Landsbankans náðu í gær samkomulagi um hugmyndir um hvernig bankarnir tveir gætu unnið saman að því tryggja stöðugleika í fjármálalífinu í samvinnu við ríkisstjórn og Seðlabanka.

Bankarnir leggja m.a. til að ríkisstjórnin ákveði að fara þá leið með Glitni sem farin var í Washington í lok septembermánaðar, þegar Washington Mutual, stærsti lána- og sparisjóður Bandaríkjanna, varð gjaldþrota og JP Morgan keypti hluta eigna hans.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins gerðu forsvarsmenn Kaupþings og Landsbanka ríkisstjórninni grein fyrir sameiginlegri tillögu sinni á fundi um kl. 17 í gær.

Geir H. Haarde forsætisráðherra sagði í samtali við Morgunblaðið í gærkvöldi að hann vildi ekkert um þetta mál segja. „Við höfum setið á fundum hér í allan dag með ýmsum aðilum en það er ekki tímabært að tilkynna sérstakar aðgerðir. Við eigum enn eftir að ljúka ýmsum málum.“

Geir sagði að ákveðnir áfangar hefðu náðst í starfi helgarinnar en jafnframt að ákveðið svigrúm hefði myndast til þess að vinna áfram að málum. Hann kvaðst ekki geta áætlað hvenær ríkisstjórnin yrði tilbúin til að kynna aðgerðaáætlun sína.

Efnislega fengust ekki aðrar upplýsingar um tillögu bankanna í gærkvöldi en þær að forsvarsmenn þeirra teldu að í nokkrum skrefum, með aðkomu ríkissjóðs, yrði hægt að tryggja hér stöðugleika kerfisins og að þær aðgerðir sem bankarnir legðu til fælu það í sér að íslenska bankakerfið myndi styrkjast en minnka.

Stjórnendur lífeyrissjóðanna eru tilbúnir til að flytja 200 milljarða af eignum lífeyrissjóðanna heim í þeim tilgangi að styrkja gjaldeyrisforðann. Þeir settu hins vegar þau skilyrði að bankarnir seldu einnig eitthvað af erlendum eignum sínum. Forystumenn lífeyrissjóðanna töldu í gærkvöldi að ekki lægju fyrir skýr svör um áform bankanna. Geir sagði hins vegar um miðnætti í gær að bankarnir myndu selja eignir í útlöndum. „Það er mjög góður vilji hjá bönkunum til að selja eignir í útlöndum og ég tel að það sé nauðsynlegt.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert