Skuldir bankanna þjóðinni ofviða

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, á blaðamannafundi í Alþingishúsinu.
Geir H. Haarde, forsætisráðherra, á blaðamannafundi í Alþingishúsinu. mbl.is/Golli

Geir H. Haarde sagði á blaðamannafundi undir kvöld, að tilgangur þess frumvarps, sem hann mælti fyrir, væri að gæta hagsmuna þjóðarinnar, koma í veg fyrir að hún verði á skuldaklafa næstu áratugina og bjarga því sem bjargað verður. Hagsmunir þjóðarinnar væru ríkari en einstakra bankastofnana.

Geir Haarde forsætisráðherra segir að alþjóðleg fjármálakreppa sé farin að segja til sín af alvöru á íslandi. Hann segir að íslensku bankarnir séu  fórnarlömb ytri aðstæðna. Íslenska þjóðin, með sína þjóðarframleiðslu, ræður ekki við að skulda jafnháar upphæðir og hér er um að tefla. En umsvif bankakerfisins, og efnahagur þess, er núna um það bil tófföld þjóðarframleiðsla.

Geir segir, á blaðamannafundi í alþingishúsinu, sem nú stendur yfir, að bankarnir heyi mikla varnarbaráttu. Uppspretta lána hefði horfið og bönkunum væri mikill vandi á höndum. Geir sagði við blaðamenn í Alþingishúsinu í kvöld að bankarnir hefðu væntanlega getað spjarað sig ágætlega hefði ekki alþjóðleg fjármálakreppa skollið á með þeim þunga og raun beri vitni.

Í einhverjum tilvikum er skuldsetning bankanna of mikil, sagði Geir og heildarskuldsetning bankakerfisins væri þjóðarbúinu ofviða. Íslenska þjóðin með sína þjóðarframleiðslu ráði ekki við að skulda jafnháar upphæðir og um sé að tefla en umsvif skuldanna sé 12 föld þjóðarframleiðsla. 

Þegar erfiðleikarnir blasa við er ekkert annað en að horfast í augu við þá segir Geir. Hann sagðist viðurkenna það fúslega, að það væru ekki eftirsóknarverð spor að standa í að þurfa að tilkynna þjóðinni um það ástand sem upp er komið. „En við í ríkisstjórninni og aðrir sem hafa komið að málinu höfum eingöngu hagsmuni þjóðarinnar að leiðarljósi jafnvel þótt grípa þurfi til harkalegra aðgerða," sagði Geir.

Hann sagði að hluthafar þeirra stofnana, sem í hlut ættu, yrðu fyrir  tjóni og viðbúið væri að það verði fleiri en hluthafarnir og að einhverju marki lánardrottnar, sem ekki fái kröfur sínar greiddar. Hann ítrekaði hins vegar, að inneignir almennings í lánastofnunum væru að fullu tryggðar.

Geir sagði, að Kaupþingsmenn teldu að staða þess banka væri nokkuð trygg eins og nú stæði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert