„Staðan er einfaldlega þannig að menn eru að selja vöruna á gömlu gengi,“ segir Knútur Signarsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra stórkaupmanna. Hann vísar til þess að heildsalar kaupi vöru erlendis fyrir ákveðna upphæð í erlendri mynt með 30-60 daga gjaldfresti. Greiðslan fyrir selda vöru berist þeim hins vegar ekki frá íslenskum kaupendum fyrr en kannski tveimur mánuðum síðar.
„Menn eru einfaldlega miður sín út af þessari blessuðu krónu,“ segir Knútur. „Segjum að þú hafir fengið vöru til landsins í septemberbyrjun og þú selur hana frá 1.-10. september ef vel gengur. Greiðslan berst þér hins vegar ekki í íslenskum krónum fyrr en 30-60 dögum seinna og varan hefur þá verið seld á gömlu gengi, því krónan hefur hrunið um meira en 20% á nokkrum vikum. Þetta er vægast sagt hrikalegt ástand og brennur mjög á stórkaupmönnum sem öðrum,“ segir Knútur Signarsson.