Eftir Þóru Kristínu Ásgeirsdóttur MBL Sjónvarpi.
Búist er við að frumvarp um aðgerðir á fjármálamarkaði verði samþykkt í kvöld eða nótt. Össur Skarphéðinsson iðnaðaráðherra segir um framhaldið að allir viti örlög Glitnis og Landsbankinn hafi sætt áhlaupi í Bretlandi. Kaupþing hafi svo fengið fyrirgreiðslu út á mjög trygg veð. Ríkisstjórnin sé hinsvegar að tryggja með sínum aðgerðum að bankar þurfi ekki að loka og viðskiptavinir geti sótt þangað þjónustu á morgun sem og aðra daga. Sparifé þeirra sé tryggt og Íbúðalánasjóður muni hlaupa undir bagga og endurfjármagna lán þeirra banka sem kunni að lenda í erfiðleikum.
Össur Skarphéðinsson segir að ríkisvaldinu beri skylda til að greiða fyrir fjármálastofnunum til að vernda hagsmuni almennings en því beri engin skylda til að hætta stórkostlegum upphæðum upp á von og óvon. Það verði því að vega og metra viðbrögð vel. Það hafi komið kröfur úr fjármálageiranum að ríkisvaldið liðsinni mönnum með upphæðir sem séu fimm eða sjöfalt meira hlutfallslega en Bandaríkjamenn séu að gera. Það komi ekki til greina að hneppa ófæddar kynslóðir í gríðarlega skuldafjötra. Ef innlánsstofnanir lenda í erfiðleikum þá taka menn þann part af bönkunum sem véli með innlán íslendinga og stofni um það sérstakt félag.
Formaður Framsóknarflokksins sagðist í þingumræðum ítrekað hafa varað við því hvert stefndi á fjármálamarkaði. Össur Skarphéðinsson segir að til sanns vegar megi færa að formaður VG hafi varað við ástandinu. Guðni Ágústsson ætti hinsvegar að skammast sín.