Samkvæmt frumvarpi, sem lagt hefur verið fram á Alþingi, fær fjármálaráðherra fyrir hönd ríkisins heimild til að leggja fram fjármagn til að stofna nýtt fjármálafyrirtæki eða yfirtaka fjármálafyrirtæki í heild eða að hluta við sérstakar aðstæður, þ.e. sérstaka fjárhags- og/eða rekstrarerfiðleika.
Ríkissjóður getur við vissar aðstæður lagt sparisjóðum til fjárframlag, sem nemur allt að 20% af eigin bókfærðu fé.
Fjármálaeftirlitið má, samkvæmt frumvarpinu, grípa inn í starfsemi fjármálafyrirtækja með víðtækum hætti til að takmarka tjón eða hættu á tjóni á fjármálamarkaði. Meðal þess sem lagt er til að það geti gert er:
- að boða til hluthafafundar eða fundar stofnfjáreigenda án tillits til samþykkta félags og ákvæða hlutafélagalaga.
- að taka yfir vald hluthafafundar eða fundar stofnfjáreigenda í því skyni að taka ákvarðanir um nauðsynlegar aðgerðir, m.a. með því að takmarka, ákvörðunarvald stjórnar, víkja stjórn frá að hluta til eða í heild sinni, taka yfir eignir, réttindi og skyldur fjármálafyrirtækis í heild eða að hluta eða ráðstafa slíku fyrirtæki, m.a. með samruna við annað fyrirtæki.
- takmarka eða banna ráðstöfun fjármálafyrirtækis á fjármunum sínum og eignum.
- krefjast þess að fyrirtæki sæki um greiðslustöðvun eða leiti til heimildar nauðasamninga.
Frumvarpið í heild
Geir H. Haarde mælir fyrir frumvarpinu á Alþingi.
mbl.is/Kristinn