Áhrif á framboð til öryggisráðsins óljós

Frá fundi í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna.
Frá fundi í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Reuters

Kristín Árnadóttir, kosningastjóri framboðs Íslands til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, segir óljóst hvaða áhrif efnahagsástandið á Íslandi og fréttaflutningur af því muni hafa á framboðið. Segir hún hlutina einfaldlega gerast svo hratt þessa dagana að erfitt sé að átta sig á áhrifum þeirra.

Kristín sagði í samtali við blaðamann mbl.is í morgun að málið hafi verið rætt á milli þeirra, sem starfi að framboðinu fyrir Íslands hönd, og fulltrúa Norðurlandanna og það sé almennt mat bæði Íslendinganna og þeirra Norðurlandabúa, sem tekið hafi þátt í þeirri umræðu, að of snemmt sé að draga nokkrar ályktanir varðandi áhrifin. „Við verðum bara aðeins að biða og sjá. Það er það sem allir eru sammála um," sagði hún.

Kristín, sem stödd er í New York, sagðist þó einnig hafa fundið fyrir ákveðnum skilningi á þeim atburðum sem séu að eiga sér stað á Íslandi. „Sú kreppa sem við stöndum frammi fyrir er nú að ganga yfir allan hinn vestræna heim og því þekkja margir, af eigin raun, svipaðar aðstæður og þær sem við stöndum frammi fyrir," sagði hún. „Þeir sem ekki verða fyrir þessu núna þekkja einnig margir erfitt efnahagsástand af öðrum orsökum. Það er því ákveðinn skilningur fyrir hendi en það er hreinlega of snemmt að segja til um það hver áhrifin verða í þessu sérstaka samhengi."     

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert