Allra augu á Íslandi

Það er nánast sama hvar borið er niður í heimspressunni: Alls staðar er mikið fjallað um inngrip íslenska ríkisins í þá stöðu sem upp er komin á íslenska hlutabréfamarkaðnum.

Vikið er að þeirri ákvörðun ríkisins í breska dagblaðinu Daily Telegraph að loka fyrir viðskipti með bréf í sex bönkum landsins, sem sé „mesta ógnin gagnvart peningalegu sjálfstæði nokkurs ríkis frá því lánsfjárkreppan kom upp fyrir fjórtán mánuðum“.

Vitnar blaðið til þeirra orða Geirs H. Haarde forsætisráðherra að líkur séu á að bresk smásölufyrirtæki verði fyrir áhrifum af röskunum í rekstri Kaupþings.

Breska ríkisútvarpið, BBC, fjallar ítarlega um fall íslenska hlutabréfamarkaðarins í fréttaskýringu um Ísland, Bretland, Danmörk, Írland, Belgíu, Þýskaland, Grikkland og hvernig ríkisstjórnir þessara ríkja hafi brugðist við efnahagsdýfunni.

Er þar haft eftir Geir að neyðarlögin séu liður í að forða Íslandi frá þjóðargjaldþroti.

Almennt má segja að bresku blöðin fylgist náið með þróuninni hér.

Fylgjast með eignum á Íslandi

Á vef Market Watch er vikið að hlutabréfaláni norræna fjárfestingarbankans Carnegie í íslenskum krónum, sem sé tryggt með íslenskum ríkisskuldabréfum.

Þá gerir sænska fjármálaeftirlitið ráð fyrir að íslenska ríkið muni koma Kaupþingi til bjargar, gerist þess þörf, líkt og gert var með Glitni á dögunum, að því er kemur fram á vef dagblaðsins Dagens Industri.

Hefur eftirlitið skoðað hve áhætta sænska fjármálakerfisins er mikil vegna ástandsins hér á landi. Segir Masih Yazdi, áhættugreinir hjá fjármálaeftirlitinu sænska, að eftirlitið hafi ekki áhyggjur af sænskum dótturfélögum Glitnis og Kaupþings.

Stórfyrirtækið Century Aluminum, móðurfélag Norðuráls, sér ástæðu til að gefa út yfirlýsingu um að fjármögnun umsvifa fyrirtækisins á Íslandi sé tryggð og að ástandið á mörkuðum hér hafi engin áhrif á uppbyggingu álversins í Helguvík.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka