Barn lenti í lífsháska vegna tyggjókúlu í ís

Hús Kjörís í Hveragerði
Hús Kjörís í Hveragerði

Kjörís hef­ur ákveðið að innkalla Tyggjó­trúð í kjöl­far óhapps er varð í síðustu viku en þá lenti barn í lífs­háska eft­ir að tyggjókúla sat föst í hálsi þess.

Að höfðu sam­ráði við Her­dísi Storga­ard fram­kvæmda­stjóra For­varna­húss­ins hef­ur sú ákvörðun verið tek­in að innkalla Trúðaís frá fyr­ir­tæk­inu og hætta fram­leiðslu hans, í nú­ver­andi mynd, þegar í stað.

Sam­kvæmt upp­lýs­ing­um frá For­varn­ar­húsi var þriggja ára dreng­ur að borða ís­inn  þegar at­vikið átti sér stað. „Í ísn­um var fros­in tyggjókúla sem hafði runnið ofan í önd­un­ar­veg hans. Litlu munaði að illa færi því dreng­ur­inn var orðinn blár en það má þakka snör­um hand­tök­um viðstaddra að ekki fór verr.

Sam­kvæmt skráðum til­fell­um hjá For­varna­hús­inu er þetta sjö­unda al­var­lega til­fellið á tæp­um 12 árum þar sem barn lend­ir í lífs­hættu við það að boða ís með tyggjó­kúlu í," að því er seg­ir í til­kynn­ingu frá For­varn­ar­húsi.

Kjörís mun ekki setja vör­una aft­ur á markað fyrr en ljóst þykir að börn­um stafi eng­in hætta af neyslu hans, að því er seg­ir í til­kynn­ingu.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert