Dregur úr framboði utanlandsferða

„Það sem við gerðum var að draga úr framboði. Náðum að bregðast nógu snemma við um leið og fór að halla á,“ segir Matthías Imsland, forstjóri hjá Iceland Express.

Gengi krónunar hefur verulega komið í bakið á Íslendingum síðustu misseri og þá ekki síst flugfélögunum og ferðaskrifstofum. Pundið er rúmlega tvö hundruð krónur og danska krónan komin yfir tuttugu krónur.

„Við hjá Iceland Express finnum klárlega fyrir því að fólk fer mun minna í utanlandsferðir til þess að versla en við njótum góðs af því að fólk er farið að leita hagkvæmari leiða til að fljúga. Það er einhver aukning á því að fólk hætti við þær ferðir sem pantaðar hafa verið en ekki í miklum mæli. Auðvitað er hræðsla varðandi framhaldið.“

Þorsteinn Guðjónsson forstjóri hjá Úrvali-Útsýn tekur undir að hann finni fyrir minni eftirspurn eftir verslunarferðum og „þessar helgarferðir séu erfiðari í sölu en áður“.

„Það er ekkert mikið um að fólk hætti við þær ferðir sem það hefur pantað. Síðasta vika reyndist svolítið erfið því fólk var bara í hálfgerðu losti. Það sem við hins vegar verðum að treysta á er að þetta ástand sé ekki komið til að vera,“ segir hann.

Aukning á sölu erlendis

Matthías hjá Iceland Express segir einnig að það sé fjölgun á erlendum ferðamönnum hér á landi. „Ég er farinn að heyra það út undan mér að fólk komi í verslunarferðir og sé hvatt til að koma hingað til að versla fyrir jólin,“ segir hann.

„Við erum farin að auglýsa næsta sumar og ég get ekki séð að það fari hægar af stað en á síðasta ári. Reyndar seljum við mikið af sætunum fyrirfram og þá eru það kaup erlendis frá.“

Finna fyrir hræðslu almennings

Sævar Skaptason, framkvæmdarstjóri Ferðaþjónustu bænda, segir að ef gengið heldur svona áfram verður umtalsverð hækkun á utanlandsferðum á næsta ári. „Nú er bara spurningin hvernig framhaldið verður. Við erum ekkert farin að auglýsa næsta sumar hjá okkur og bíðum bara átekta og sjáum hvernig næstu tvær þrjár vikur verða. Það segir sig sjálft að þurfi að hækka verðið mikið fari fólk í mun minna mæli í ferðir erlendis.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert