Geir H. Haarde, forsætisráðherra, sagði á blaðamannafundi í Iðnó í dag, að tilkynning hefði borist frá rússneskum stjórnvöld um í morgun um að þau væru tilbúin að ræða það á jákvæðum nótum að veita íslenska ríkinu lán. Ekki væri hins vegar búið að ganga nákvæmlega frá þeim kjörum, sem lánið verði veitt á, og muni fulltrúar íslenskra stjórnvalda halda til Moskvu í fyrramálið til viðræðna við Rússa.
„Þetta eru mikil og góð tíðindi og þakkarverð af hálfu rússneskra yfirvalda," sagði Geir.
Hann sagði, að lánið væri veitt á fullkomlega eðlilegum forsendum og ekki væri rætt um að Rússar fengju neinar ívilnanir hér á landi á móti. Náist samkomulag um lánið muni féð fara í gjaldeyrisvarasjóð landsins en ekki notað til að bjarga bönkum.
Geir sagði, að rússnesk stjórnvöld hefðu sýnt mikinn velvilja í þessu efni en íslensk stjórnvöld hefðu m.a. nýlega gagnrýnt Rússa fyrir aðgerðir þeirra í Georgíu.
Seðlabankinn hefur sent frá sér tilkynningu þar sem áréttað er að löndin hafi ákveðið að hefja viðræður um fjármálaleg atriði innan fárra daga. Háttsettur rússneskur embættismaður sagði í morgun, að engin formleg ósk hafi komið frá Íslandi um lán, samningaviðræður hafi ekki hafist og engin lánsákvörðun hafi verið tekin.