Fjölgar á vanskilaskrá

Alls voru 16.086 Íslendingar, 18 ára og eldri, í dag á vanskilaskrá sem fyrirtækið Creditinfo Ísland tekur saman.  Aukning hefur verið á fjölda vanskila á öllum búsetusvæðum en  hæst mælist hlutfall einstaklinga í vanskilum á Reykjanesi.

Á fyrstu níu mánuðum ársins er fjöldi nýskráðra einstaklinga á vanskilaskrá um það bil sá sami og allt árið 2007. Á tólf mánaða tímabili árið 2007 bættust við 3348 einstaklingar 18 ára og eldri á vanskilaskrá. Þetta gerir að meðaltali 279 einstaklinga á mánuði. Á fyrstu níu mánuðum ársins 2008 hafa bæst við 3316 einstaklingar 18 ára og eldri á vanskilaskrá. Þetta gerir að meðaltali 368 einstaklinga á mánuði sem samsvarar ríflega 30% aukningu frá fyrra ári.

Flestir einstaklingar á vanskilaskrá eru á aldrinum 30 – 39 ára, eða samtals 4212 einstaklingar. Creditinfo Ísland mun á næstu vikum sérstaklega vakta vanskilaskráningar hjá þessum aldurshópi auk þess að skoða hvernig þróunin mælist hjá eldri borgurum.  1704 einstaklingar 60 ára og eldri, eru í alvarlegum vanskilum.

Í tilkynningu frá Creditinfo segir, að fyrirtækið vilji, í ljósi þeirra aðstæðna sem nú ríkja í íslensku samfélagi, leggja sitt af mörkum til að upplýsa helstu ráðuneyti og ráðamenn sem best um stöðu almennings og fyrirtækja sem nú stefna í alvarleg vanskil eða gjaldþrot. Lögð verði áhersla á að upplýsa félagsmálaráðuneytið sem best um stöðu fjölskyldufólks og eldri borgara með því að vakta og mæla sérstaklega hvernig vanskil eru að þróast hjá þessum hópum næstu vikurnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert