Hafskip enn í skotlínu

Útvegs­bank­inn gekk frá sölu á eign­um Haf­skips nokkr­um dög­um áður en fé­lagið var tekið til gjaldþrota­skipta. Samn­ing­un­um var haldið leynd­um, meðal ann­ars fyr­ir stjórn­end­um Haf­skips. Kem­ur þetta fram í bók Björns Jóns Braga­son­ar sagn­fræðings, „Haf­skip í skotlínu“, sem kom út í gær. Fyrr­um stjórn­end­ur Haf­skips byggja kröfu sína um op­in­bera rann­sókn í Haf­skips­mál­inu meðal ann­ars á rann­sókn­um bók­ar­höf­und­ar.

„Það kom mér einna mest á óvart hvernig virðist hafa verið gengið frá sölu á eign­um fé­lags­ins fyr­ir gjaldþrot,“ seg­ir Björn Jón um niður­stöður rann­sókna sinna á Haf­skips­mál­inu. Hann vís­ar til upp­lýs­inga sem fram koma í bók­inni um samn­inga stjórn­enda Útvegs­bank­ans og Eim­skipa­fé­lags­ins aðfaranótt 1. des­em­ber 1985 um kaup Eim­skips á eign­um Haf­skips, að eig­end­um Haf­skips og stjórn­end­um for­sp­urðum. „Ég fann alla þá samn­inga og sá hvernig Útvegs­bank­inn skuld­batt sig til þess að leita allra leiða til þess að Haf­skips­menn gæfu fé­lagið upp til gjaldþrota­skipta. Þeir sögðu þeim hins veg­ar ósatt um ástæður þess, sögðu að taka yrði fé­lagið til skipta til að aflétta kyrr­setn­ingu Skaft­ár en það var tylli­á­stæða eins og einn af banka­stjór­um Útvegs­bank­ans skýrði fyr­ir mér,“ seg­ir Björn Bragi.

Haf­skip var gefið upp til gjaldþrota­skipta 6. des­em­ber 1985. Frá því um mitt sum­ar höfðu stjórn­end­ur fé­lags­ins reynt að selja rekst­ur þess. Meðal ann­ars var rætt við Eim­skip og skipa­deild Sam­bands ís­lenskra sam­vinnu­fé­laga. Fram kem­ur í bók­inni að minnstu hafi munað að Sam­bandið tæki upp sam­starf við Haf­skips­menn um rekst­ur nýs skipa­fé­lags. Eft­ir að stjórn SÍS felldi til­lögu um það hóf­ust viðræður eig­enda Íslenska skipa­fé­lags­ins og Útvegs­bank­ans um leiðir til að halda rekstr­in­um áfram. Sér­stak­ur trúnaðarmaður viðskiptaráðherra í mál­inu, Gunn­laug­ur Claessen rík­is­lögmaður, taldi í skýrslu til ráðherra að með stofn­un Íslenska skipa­fé­lags­ins hefði tek­ist að bjarga fjár­mun­um sem ella hefðu farið for­görðum. Fram kem­ur í bók­inni að fjór­um dög­um síðar hafi hann lagt til að Útvegs­bank­inn og Eim­skipa­fé­lagið gerðu með sér bind­andi samn­ing um til­boð Eim­skips í eign­ir Haf­skips eft­ir að fé­lagið hefði verið tekið til gjaldþrota­skipta. Þessi aðferð var nefnd „hreina leiðin“. Matth­ías Bjarna­son, sem þá var viðskiptaráðherra, lýsti því yfir við bók­ar­höf­und að hon­um hefði verið ókunn­ugt um þessa samn­inga og teldi að rík­is­lögmaður hefði farið út fyr­ir verksvið sitt með því að stuðla að þeim. Þá kem­ur einnig fram að Jó­hann­es Nor­dal seðlabanka­stjóri hafi verið milli­göngumaður við samn­inga Útvegs­bank­ans og Eim­skips.

Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert
Loka