Ákveðið hefur verið að auðkenna íslenskar sjávarafurðir sem unnar eru úr afla í íslenskri lögsögu með séríslensku merki. Þetta merki vísar til íslensks uppruna afurðanna og ábyrgra fiskveiða. Heimilt verður að nota það á öllum mörkuðum fyrir sjávarafurðir. Merkið má jafnframt nota á afla íslenskra fiskiskipa úr deilistofnum sem lúta heildarstjórnun. Merkið verður tilbúið til notkunar síðar í þessum mánuði og munu framleiðendur, sem þess óska, geta prentað það á umbúðir samkvæmt reglum, sem um notkun merkisins gilda.
Á undanförnum árum hafa kröfur um sjálfbæra nýtingu endurnýjanlegra auðlinda, þ. á m. fiskistofna, aukist um allan heim. Það á ekki síst við um helstu markaði íslenskra sjávarafurða. Fáar þjóðir eru eins háðar því að arðbærar fiskveiðar verði stundaðar til frambúðar og Íslendingar, segir í kynningu á merkinu. „Því er það lykilatriði fyrir Íslendinga að fiskistofnar séu nýttir á ábyrgan og sjálfbæran hátt“.