„Við erum að setjast yfir það á hvaða verði við yfirtökum [húsnæðis]lánin [í Landsbankanum] og kjörin á þeim eiga að minnsta kosti ekki að versna,“ segir Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra. Fyrst og fremst sé þó markmiðið „að koma íbúðalánum í skjól.“
Jóhanna segir að séð verði til þess að fólk geti notið þeirra greiðsluerfiðleikaúrræða sem Íbúðalánasjóður hafi, en bankarnir ekki, eins og til dæmis skuldbreytingum og frystingu afborgana.
Þá sé í farvatninu lögfesting á frumvarpi um greiðsluaðlögun sem hjálpi fólki er standi í miklum vanskilum. Slíkt hafi verið við lýði á Norðurlöndunum og gagnast þar vel.
Eftir eigi að koma í ljós hvernig hægt verði að aðstoða það fólk sem tekið hafi erlend íbúðalán til að sleppa við verðtryggingu, og þannig tekið áhættu. Vandasamt verði að ráða fram úr því.
Hvað varðar endurskoðunarákvæði um vexti sumra húsnæðislána sagði Jóhanna að það verði skoðað sérstaklega, og „það er ekki síst þess vegna sem fólk er í betra skjóli hjá okkur.“ Íbúðalánasjóður hafi hvað þetta varði mun fleiri úrræði en bankarnir.
Samkvæmt endurskoðunarákvæðunum, sem Jóhanna segist telja að nái til um 5.500 einstaklinga, koma vextir á lánunum til endurskoðunar í ágúst á næsta ári.
„Ég fullvissa fólk um að við munum gera þetta eins vel og vandlega og kostur er,“ sagði Jóhanna. „Það er okkar hlutverk hér í ráðuneytinu.“