Leiðrétti fréttir danskra fjölmiðla af bankakreppu

Í þýðingu dönsku fréttastofunnar Ritzau, sem send var dönskum fjölmiðlum í gær, var merkingu tilvitnunar í ávarpi Geirs H. Haarde breytt á alvarlegan hátt, segir í frétt á vef almannatengslafyrirtækisins KOM, sem hafði samband við Ritzau og kom leiðréttingu á framfæri.

Á vef KOM segir:

„Alþjóðlega fréttaveitan Reuters sendi í gærkvöldi út fréttatilkynningu á ensku um atburðina á Íslandi og ræðu forsætisráðherra. Í tilkynningunni var meðal annars vitnað í forsætisráðherra þegar hann sagði „sú hætta er raunveruleg, góðir landsmenn, að íslenska þjóðarbúið myndi, ef allt færi á versta veg, sogast með bönkunum inn í brimrótið og afleiðingin yrði þjóðargjaldþrot."

Í þýðingu dönsku fréttastofunnar Ritzau sem send var dönskum fjölmiðlum í gær var merkingu þessarar tilvitnunar í ræðu forsætisráðherra hins vegar breytt á alvarlegan hátt, þegar viðtengingarhátturinn var tekinn út. Á dönsku var tilvitnunin þá: „Vi står over for den mulighed, at den nationale økonomi suges ind i den globale bankkrises dyb, og at nationen kan ende med at gå bankerot," sem útleggst „sú hætta er raunveruleg að íslenska þjóðarbúið sogist með bönkunum inn í brimrótið og afleiðingin verði þjóðargjaldþrot." Þessi litla breyting, að taka úr viðtengingarháttinn, gerbreytir merkingu tilvitnunarinnar og gerir hana enn svartsýnni en hún í raun er.

Athugull starfsmaður KOM almannatengsla rak augun í þessa dæmigerðu vitleysu Dananna í gærkvöldi. Hann hafði samband við dagblaðið Berlingske Tidende og viðskiptablaðið Börsen og krafðist leiðréttingar. Bæði blöðin svöruðu með tilvísun í þýðingu Ritzau og neituðu að leiðrétta fréttir sínar. Þá var haft samband við Ritzay beint sem brást skjótt við og sendi út leiðréttingu seint í gærkvöldi. Ritstjóri erlendra frétta Ritzau tók þó fram að þeir hefðu ákveðið að nota betri dönsku en starfsmaður KOM hafði lagt til. Börsen hefur enn ekki, þegar þetta er skrifað, lagfært sína frétt. Hins vegar er leiðrétta útgáfa Ritzau á fréttinni ráðandi í dönskum vefmiðlum í dag.

Í nýju fréttinni á Berlingske Tidende er fyrirsögnin nú „Haarde: Ísland stóð frammi fyrir gjaldþroti", í stað "Haarde: Ísland stendur frammi fyrir gjaldþroti," áður.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert