Norðmenn reiðubúnir að veita Íslandi efnahagsaðstoð

Kristin Halvorsen, fjármálaráðherra Noregs.
Kristin Halvorsen, fjármálaráðherra Noregs. Reuters

Kristin Halvorsen, fjármálaráðherra Noregs, er reiðubúin til viðræðna við íslensk stjórnvöld um efnahagsaðstoð vegna bankakreppunnar. Leiðtogi Venstre-flokksins segir til greina koma að Norðmenn kaupi íslenska banka.

Á norska vefnum E24 er haft eftir Halvorsen að íslensk stjórnvöld hafi ekki haft samband við norsk, en kæmi til þess yrðu viðræður um efnahagsaðstoð hafnar.

Halvorsen tók fram eftir blaðamannafund, sem haldinn var í morgun um norsku fjárlögin, að íslenska ríkið stæði mjög vel.

Lar Sponheim, leiðtogi stjórnarandstöðuflokksins Venstre, sagði á Stórþinginu að Norðmenn ættu að „hafa samband við bræður okkar í vestri“ og kanna hvernig Norðmenn gætu orðið að liði.

Sagði Sponheim að Norðmönnum bæri skylda til að hjálpa Íslendingum: „Við höfum sömu arfberana. Blóð er þykkara en vatn.“

Þá útilokaði Sponheim ekki að Norðmenn kaupi íslenska banka. „Svo kann að fara að við verðum að gera það, en það verður að gerast á vinsamlegan máta.“

Kvaðst Sponheim vænta þess að norsk stjórnvöld hefðu samband við íslensk innan skamms.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka