Heildarskuldir fyrirtækja og einstaklinga á Íslandi í erlendri mynt nema tæplega 2.800 milljörðum íslenskra króna samkvæmt upplýsingum frá Seðlabanka Íslands. Á hvern íbúa nema skuldirnar 8,6 milljónum króna í erlendri mynt eingöngu.
Með þessum tölum er aðeins átt við skuldir hér á landi en ekki skuldir íslenskra fyrirtækja og einstaklinga við erlendar fjármálastofnanir.
Engin önnur þjóð í heiminum skuldar eins mikið í annarri en þjóðarmynt miðað við höfðatölu.
Vegna mikillar veikingar krónunnar undanfarnar sex vikur, sem nemur rúmlega 20 prósentum, hafa skuldirnar aukist um rúmlega 400 milljarða króna.
Óyfirstíganlegt?
"Það er ekki annað að sjá en að miklir erfiðleikar séu framundan í íslensku atvinnulífi," segir Gylfi Zoega, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands. Hann segir aukið atvinnuleysi og gjaldþrot fyrirtækja, stórra sem smárra, blasa við. Gylfi segist jafnframt líta svo á að íslenskt hagkerfi hafi góða möguleika Þegar til lengri tíma er litið. Erfiðleikarnir séu yfirstíganlegir þótt þeir verði miklir á næstu mánuðum. Á meðan grunnþættir eru sterkir, eins og hér á landi, þá liggur fyrir að við höfum mikla möguleika á jákvæðri stöðu í efnahagsmálum horft til framtíðar. Það munu aðrir koma í stað þeirra sem fara illa út úr niðursveiflunni sem þegar er hafin. Hún mun lenda illa á mörgum einstaklingum en þjóðin heldur áfram. Framundan er sársaukafullt tímabil en stoðir íslensks samfélagsINS eru sterkar," segir Gylfi og vitnar til þess að menntunarstig þjóðarinnar sé hátt, útflutningsgreinar hafi bjarta framtíð og góður grundvöllur sé til enduruppbyggingar.
Eignirnar duga ekki
Þótt skuldastaðan sé slæm – í raun afleit – hafa ýmsir á það bent að eignir fyrirtækja og einstaklinga séu verðmætar á móti. Eignir séu til fyrir að minnsta kosti megninu af skuldunum.
Ein birtingarmynd þess alþjóðlega vanda sem nú blasir við er sú að erfitt – eða næstum ómögulegt – er að koma eignum í verð. Í ljósi nýjustu atburða, það er hamfara á fjármálamörkuðum, er ljóst að skuldabaggi þjóðarinnar verður henni þungbær í nánustu framtíð.