Varðskip til aðstoðar færeyskum togara

Varðskip Landhelgisgæslunnar á siglingu í hafís.
Varðskip Landhelgisgæslunnar á siglingu í hafís.

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst í gærkvöldi beiðni um aðstoð frá færeyska togaranum Rasmus Effersöe sem er vélarvana 9-10 sjómílur undan Austur-Grænlandi og um 550 sjómílur norður af Akureyri. Áætlað er að varðskipið dragi skipið til Akureyrar.

Samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni var varðskip samstundis undirbúið fyrir brottför og hélt úr Reykjavíkurhöfn um klukkustund síðar eða laust fyrir klukkan eitt í nótt og siglir nú áleiðis á staðinn.  Búist er við að varðskipið verði komið að togaranum um hádegi á fimmtudag. Að sögn skipverja er veður sem stendur gott á svæðinu, nokkur hafís en veðurspá góð.

Togarinn Rasmus Effersöe er 479 brúttólestir að stærð og 42,5 metra langur. Togarinn var á svæðinu til aðstoðar rússneska rannsóknaskipinu GEO ARCTIC og bíður rússneska skipið hjá togaranum eftir komu varðskipsins.

Landhelgisgæslan segir, að umfangsmiklar loftslagsbreytingar hafi orðið orðið á síðastliðnum árum og haft í för með sér aukna skipaumferð um hafísslóðir á Norður-Atlantshafi.  Leitar- og björgunarsvæði Landhelgisgæslunnar er 1.800.000 ferkílómetrar en efnahagslögsagan er 754.000 ferkílómetrar og ber Landhelgisgæslan ábyrgð á öllum leitar- og björgunaraðgerðum innan svæðisins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert