Samtök atvinnulífsins hafa stofnað vinnuhóp til að fylgjast með afleiðingum fjármálakreppunnar fyrir atvinnulífið í landinu. Vinnuhópurinn er skipaður fulltrúum allra aðildarsamtaka SA og fulltrúa Viðskiptaráðs Íslands.
Safnað verður saman upplýsingum um áhrif á fyrirtæki, vandamál sem upp koma og hvernig unnt er að bregðast við þeim. Samtökin munu koma upplýsingum á framfæri við fulltrúa ríkisstjórnarinnar og gæta þannig hagsmuna fyrirtækjanna.
Segir á vef SA, að mikilvægasta verkefni stjórnvalda nú sé að koma fjármagnsflæði í landinu í eðlilegt horf þannig að fyrirtæki hafi nauðsynlegan aðgang að rekstrarfé og búa þannig um hnútana að stöðugleiki komist á sem fyrst - bæði í gengis- og verðlagsmálum og að vextir lækki sem allra fyrst.
Umsjón með verkefninu af hálfu SA hafa Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri SA, Guðlaugur Stefánsson, hagfræðingur og Pétur Reimarsson, forstöðumaður.