Fastgengisstefna tekin upp eftir sjö ára hlé

mbl.is/G. Rúnar

Fastgengi er orð sem ekki hefur verið notað lengi í umræðunni hér á landi eða þar til í gærmorgun, að Seðlabankinn tilkynnti að hann hefði fest gengi íslensku krónunnar gagnvart erlendum myntum. Bankinn tók þessa ákvörðun að fengnu samþykki forsætisráðherra. Gengið tók mið af gengisvísitölu 175, sem samsvarar um 131 krónu gagnvart evru.

Sigurður Snævarr, hagfræðingur og aðjunkt við Háskóla Íslands, skrifaði bókina „Hagsaga Íslands.“

Sigurður segir að líta megi á gengið sem verð á ákveðinni vöru. Þegar gengi sé fest ákveði stjórnvöld að þetta verð skuli ákveðið af þeim.

Sigurður segir að lengst af í okkar hagsögu hafi ekki verið neitt vandamál fyrir stjórnvöld að fastsetja gengið. Fjármagnsviðskipti við útlönd hafi verið algerlega á vegum ríkisins. Skammtímalán voru bönnuð og langtímalán þurftu að fara í gegnum svokalla langlánanefnd til samþykktar. Þetta ástand ríkti frá því um 1960 fram undir 1990. Seðlabankinn gat fellt gengið að höfðu samráði við ríkisstjórnina og var oft gripið til þeirrar aðgerðar til þess að rétta stöðu útflutningsgreinanna og þá fyrst og fremst fiskvinnslunnar.

Með samkomulaginu um Evrópska efnahagssvæðið (EES), sem gekk í gildi í áföngum á árunum 1991 til 1995, voru tekin upp frjáls viðskipti með fjármagn. Við það var tekin upp önnur tegund fastgengisstefnu. Seðlabankinn ákvað gengið eins og áður en hann tók jafnframt að sér það hlutverk að verja gengið. Þessi skipan var til ársins 2001, þegar tekið var upp svokallað flotgengi, en það fyrirkomulag hefur gilt þar til í gær.

Sigurður segir að fastgengisstefnan hafi ýmsa kosti. Hún auki verðstöðugleika, dragi úr gengisáhættu og greiði fyrir viðskiptum milli landa. Gallinn við fastgengisstefnuna sé hins vegar sá, að ef peningastefna viðkomandi ríkis sé ótrúverðug, sé hætta á spákaupmennsku og árásum á myntina, í þessu tilfelli krónuna.

Sigurður segir að sú aðgerð Seðlabankans að festa gengið sé væntanlega aðgerð að hans hálfu til þess að vinna tíma til að grípa til aðgerða, sem muni auka tiltrú á íslenska efnahagskerfinu. Gallinn sé bara sá, að honum sýnist fátt að gerast á Íslandi sem geti orðið til þess að auka trúna á íslensku krónuna.

Sigurður segir að ef Seðlabankinn fari í gamla farið og fastsetji gengið til langs tíma væri það væntanlega brot á EES-samkomulaginu og við dyttum út úr því samstarfi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert