Hollensk stjórnvöld hafa óskað eftir upplýsingum frá íslenskum stjórnvöldum um stöðu netbankans Icesave, sem rekinn var á vegum Landsbankans þar í landi. Netbankanum hefur verið lokað líkt og bankanum í Bretlandi og reikningseigendur hafa ekki getað nálgast reikninga sína.
Geir H. Haarde, forsætisráðherra, sagði á blaðamannafundi síðdegis, að það gilti sama og um Bretland, að málin verði sett í ákveðinn farveg og viðræður á milli landanna.
Hollenskur blaðamaður stóð upp á fundinum og sagðist eiga inneign í Icesave í Hollandi. „Hvernig get ég fengið peningana mína aftur?" spurði hann. Geir svaraði að honum þætti þetta leitt.