Geir H. Haarde, forsætisráðherra, sagði á blaðamannafundi í Iðnó í dag, að ýmis samtöl hefðu átt sér stað í dag milli breskra og íslenskra embættismanna og einnig ráðherra um þá stöðu, sem komin er upp vegna Icesave innlánsreikninga Landsbankans í Bretlandi.
„Okkur finnst mjög mikilvægt að þessi mál fari í þann farveg að unnið sé að þeim á vegum stjórnvalda beggja landanna en ekki sé um að ræða frekari yfirlýsingar eða skeytasendingar á milli ráðamanna landanna," sagði Geir.
Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra, sagði að samið yrði við Breta um þetta mál og enginn væri að hlaupa frá einu né neinu. Ríkisstjórnin hefði ítrekað í yfirlýsingu í dag, að hún muni styðja við Tryggingasjóð innlána og allt benti til þess að Landsbankinn muni eiga að mestu fyrir langstærstum innistæðum á reikningunum. Það sem eftir stæði yrði samið um milli þessara vinaþjóða.
„Það skall á okkur mikil umræða um stöðu innlánsreikninganna í Bretlandi og efasemdir sem breskir ráðamenn höfðu um að Íslendingar ætluðu ekki að standa við sínar skuldbindingar og það féllu hörð orð um það... Ég held að við höfum eytt miklum efasemdum um það mál," sagði Björgvin.
Fram kom í máli Björgvins, að unnið hafi verið að því á undanförnum mánuðum af hálfu íslensku og bresku fjármálaeftirlitanna, að breyta Icesave netbankanum í dótturfélag Landsbankans þar í landi, sem hefði þýtt að reglur um breskar innlánatryggingar hefðu alfarið gilt. Breska fjármálaeftirlitið hefði hins vegar sett afar ströng skilyrði sem Landsbankanum hefði ekki tekist að uppfylla.
Björgvin sagði, að ef ekkert fengist upp í kröfur vegna innlánsreikninganna í Bretlandi væri hámarkið sem þjóðin þyrfti að borga út 450 milljarðar króna. Ljóst væri hins vegar að ekki kæmi til þess.