Ekki er hægt að kaupa gjaldeyri í bönkum landsins fyrir meira en 100.000 krónur og aðeins einn banki leyfir símgreiðslur milli landa og þá eingöngu að upphæð 2 milljónir króna. Þetta gerir að verkum að erfiðlega gengur fyrir fyrirtæki að kaupa vörur erlendis frá.
Forsvarsmenn fjölda fyrirtækja sögðu í samtölum við 24 stundir í gær að áhrifanna væri farið að gæta nú þegar. Ekki hefur verið hægt að kaupa erlendan gjaldeyri nema í einum banka, Kaupþingi, og þá aðeins með því að senda gjaldeyri með símgreiðslu og hefur sú upphæð verið 2 milljónir króna að hámarki.
„Þetta er eins og að fara út í búð með fullar hendur fjár en það er engin mjólk til,“ sagði einn viðmælandi 24 stunda sem er innkaupastjóri hjá stóru innflutningsfyrirtæki, en hann vildi ekki láta nafns síns getið. Hann sagði að ef ástandið myndi ekki lagast fljótlega myndi þolinmæði birgja þrjóta sem hafa hingað til hafa sýnt íslensku fyrirtækjunum skilning.
Í síðustu viku var haft eftir forstjóra N1 að laga yrði gjaldeyrisstöðuna sem allra fyrst, ef ekki ætti að koma til gjaldeyrisskorts og haft var eftir framkvæmdarstjóra Bónuss að fólk ætti að búa sig undir vöruskort.
Sala á gjaldeyri til einstaklinga hefur einnig verið skert verulega og einskorðast ýmist við 100.000 krónur, 50.000 krónur eða þá að alfarið er lokað fyrir gjaldeyrisviðskipti.
Á blaðamannafundi í gær boðaði forsætisráðherra aðgerðir vegna þessa en ekki fengust upplýsingar um í hverju þær fælust áður en blaðið fór í prentun.