„Getum sagt skilið við annars flokks stöðu kvenna"

„Við erum með aðstæður núna þar sem við getum sagt skilið við samfélag sem byggðist á annars flokks stöðu kvenna. Samfélag sem fólst meðal annars í skotheldu glerþaki og Evrópumeti í kynbundnum launamun.

Nú er tækifæri til að stokka spilin upp og vinna markvisst að því að það sem gert verði héðan í frá hafi jákvæð áhrif, ekki bara fyrir karla heldur líka fyrir konur,“ segir Lilja Mósesdóttir, hagfræðingur og fyrrverandi prófessor.

Munur á körlum og konum

„Við eigum margt ólært og getum leitað víða eftir lærdómi um hvaða áhrif svona kreppa hefur og hvernig er best að bregðast við henni. Líka hvernig er best að bregðast ekki við.“

Lilja segir mikinn mun á því hvernig kreppan kemur við konur og karla. „Konur tapa ekki í fyrstu hrinunni. Það eru karlarnir sem missa vinnuna í fjármálageiranum. Þær byrja virkilega að finna fyrir áhrifum fjármálakreppunnar í lok þessarar viku eða næstu viku þegar fyrirtækin þurfa að loka því þau fá ekki lán eða þurfa að fara fram á greiðslustöðvun.“

Hún segir kreppuna einnig hafa bitnað á velferðarkerfinu í Asíu. Sérstaklega í þeim löndum þar sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn kom inn því hann gerði mjög strangar kröfur um niðurskurð á útgjöldum ríkisins. Þvert á kenningar þeirra sem segja að þá eigi að auka útgjöld ríkisins til að tryggja atvinnu og að hjól atvinnulífsins gangi. Í kreppunni í Asíu misstu konur frekar vinnuna en karlar og jafnframt styttist vinnutími þeirra meira. Auk þess jókst vinna þeirra á heimilunum þar sem dró úr velferðarþjónustu. Störf í boði voru í mörgum tilfellum í svarta hagkerfinu þar sem laun eru lág og engin réttindi veitt. Ofan á allt þetta urðu allir að taka á sig mikla skerðingu raunlauna.

Uppbygging fyrir karla?

Þótt það sé jákvætt að setja peninga í sprotafyrirtæki var reynslan í Suður-Kóreu sú að störfin sem þau sköpuðu voru fyrst og fremst karlastörf. „Ekki vegna þess að það voru bara karlar sem gátu sinnt þeim eða voru með menntun til þess heldur voru þau einfaldlega skilgreind þannig,“ segir hún.

Þá segir hún það áhygguefni ef stjórnvöld ætla að gefa afslátt af umhverfismati til að skapa störf í álverum. „Þar eru aðallega karlastörf en það eru helst konur í þjónustugeiranum sem missa vinnuna.“

Lilja segir mjög mikilvægt að konur fái tækifæri til að móta þær aðgerðir sem nú verði gripið til. Allar aðgerðir verði að meta út frá áhrifum þeirra á konur og karla. Þær þurfi að fela í sér nýjar áherslur; á áhættumeðvitund í stað áhættusækni, langtímaárangur í stað skammtímaárangurs, gegnsæi í stað leyndar og samfélagslegan ávinning í stað einstaklingsávinnings.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert