Lagt til að frídagar verði fluttir

Verður 1. maí færður til?
Verður 1. maí færður til? mbl.is/Friðrik Tryggvason

Lögð hefur verið fram þingsályktunartillaga um skipan frídaga að vori. Tillagan felur í sér að 1. maí, frídagur verkamanna verið haldinn hátíðlegur á fyrsta mánudegi í maí og að fimmtudagsfrídagar flytjist yfir á föstudaginn á eftir til hagræðis fyrir almenning og aukinnar framleiðni í þjóðfélaginu.

Frummælendur tillögunnar eru þingmennirnir Samúel Örn Erlingsson, Bjarni Harðarson, Birkir Jón Jónsson.

Í greinargerð sem fylgir ályktuninni segir:

„Landsmenn eiga allajafna frídag tvo fimmtudaga á hverju vori, þannig að hvorki er frídagur á undan eða eftir. Þessir frídagar tveir eru uppstigningardagur og sumardagurinn fyrsti. Sömuleiðis eiga landsmenn frídag 1. maí, sem fellur eðlilega til skiptis á daga vikunnar.
Flestir eru sammála um það að stakir frídagar eru á margan hátt óheppilegir á vinnustöðum. Þeir skapa óhagræði og draga úr framleiðni, og valda að margra mati því að vinnuvikan verður varla nema þrír dagar. Á sama hátt nýtist stakur frídagur launþegum ekki nema að nokkru leyti, með vinnudag á undan og eftir.

Í mörgum nágrannaríkjum Íslands hefur þessari skipan verið breytt og stakir frídagar verið færðir að helgum eða felldir að öðru fríi. Nokkrar tilraunir hafa verið gerðar til að koma svipuðu á hérlendis, m.a. með framlagningu þingsályktunartillagna á 117. og 132. þingi og þá í tengslum við breytingu á sumartíma o.fl.

Aðilar vinnumarkaðar hafa einnig fjallað um þessi mál í tengslum við kjarasamninga, án þess að breytingar hafi orðið. Því er ekki að neita að hér getur verið um tilfinningamál að ræða, sumardagurinn fyrsti markar upphaf sumars samkvæmt gamalli hefð, uppstigningardagur er helgidagur þjóðkirkjunnar og 1. maí hefur bæði sögulega og táknræna þýðingu fyrir verkalýðshreyfinguna. Eðlilegt er þó að ganga beint til þessa verks, en leggja um leið áherslu á gildi þessara daga og það að almenningi sé gert auðveldara að hafa þá í heiðri. Með því er hlúð bæði að framleiðni fyrirtækja og samverustundum fjölskyldna í landinu."


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert