Geir H. Haarde, forsætisráðherra, sagði á blaðamannafundi, að íslensk stjórnvöld væru mjög óánægð og hneyksluð að bresk yfirvöld skyldu í gær beita Íslendinga ákvæðum í sérstökum lögum um varnir gegn hryðjuverkastarfsemi. Þetta væri í raun mjög óvinveitt aðgerð.
Fram kom í gær að bresk stjórnvöld hefðu beitt umræddu lagaákvæði til að frysta eignir Landsbankans í Bretlandi.
Geir sagðist hafa rætt við Alistair Darling, fjármálaráðherra Bretlands, í dag og komið þessum sjónarmiðum á framfæri. Hefði Darling heitið því í símtalinu, að gefin yrðu fyrirmæli um nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að öll eðlileg venjuleg viðskipti milli landanna geti farið fram eins og ekkert hafi í skorist. Hefur Darling staðfest þetta bréflega.
Þá féllst Darling á að senda hingað til lands sendinefnd til að ræða við íslensk stjórnvöld og bregða ljósi á máli. Geir sagði að Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra, muni hitta Darling á ársfundi Alþjóðabankans í Washington síðar í vikunni.
Geir sagðist hafa minnt Darling á að mjög mikilvægt væri að viðskipti íslenskra fyrirtækja við Bretland geti gengið eðlilega fyrir sig. Íslendingar væru með starfsemi í Bretlandi þar sem 100 þúsund manns starfa, aðallega Bretar.
Bæði Geir og Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra, sögðu að það hefðu orðið gríðarleg vonbrigði þegar Kaupþing varð að játa sig sigrað í gærkvöldi og óska eftir inngripum Fjármálaeftirlitsins í rekstur bankans.